149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

húsaleigulög.

795. mál
[21:47]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á húsaleigulögum. Frumvarpið hefur það að markmiði að bæta húsnæðisöryggi þeirra sem fengið hafa íbúðarhúsnæði á leigu vegna starfs síns. Í húsaleigulögum hefur um langt skeið verið sérregla sem veitir þessum hópi lakari réttarvernd við lok leigusamnings en almennt gildir um leigjendur íbúðarhúsnæðis. Þannig hefur allt frá árinu 1979 verið kveðið á um það í lögum hér á landi að þegar leigjandi er starfsmaður leigusala og hefur fengið íbúðarhúsnæði á leigu hjá vinnuveitanda vegna þess starfs falli leigusamningur niður án sérstakrar uppsagnar láti leigjandi af störfum að eigin ósk, sé löglega vikið úr starfi vegna brota í því eða vegna þess að fyrir fram umsömdum ráðningartíma sé lokið.

Umrætt ákvæði er nú að finna í 50. gr. húsaleigulaga og hefur þar staðið óbreytt allt frá gildistöku laganna í ársbyrjun 1995 en efnislega samhljóða ákvæði var áður að finna í 62. gr. eldri laga um húsaleigusamninga. Það er brýnt að gerðar verði breytingar á umræddu ákvæði húsaleigulaga til að auka húsnæðisöryggi þeirra leigjenda sem fengið hafa íbúðarhúsnæði á leigu vegna starfs síns. Af 50. gr. laganna leiðir að komi til slita á ráðningarsambandi vinnuveitandans og starfsmannsins fellur leigusamningur þeirra á milli sjálfkrafa úr gildi strax við starfslok starfsmannsins. Það hefur vitaskuld í för með sér að hann þarf þegar í stað að rýma og skila leiguhúsnæðinu til vinnuveitandans og nýtur því ekki uppsagnarfrests líkt og almennt gildir við lok leigusamnings. Samkvæmt húsaleigulögum er það svo að leigjandi á almennt rétt á uppsagnarfresti af hálfu leigusala þegar um uppsögn ótímabundins samnings er að ræða. Sá uppsagnarfrestur getur verið mislangur við leigu íbúðarhúsnæðis og fer eftir aðstæðum hverju sinni. Alla jafna er hann sex mánuðir að lengd en getur þó orðið 12 mánuðir ef leigjandi hefur haft íbúðarhúsnæði á leigu lengur en 12 mánuði og leigusalinn er lögaðili sem leigir húsnæðið út í atvinnuskyni. Svo er aftur á móti ekki þegar um er að ræða leigjanda sem fengið hefur á leigu íbúðarhúsnæði hjá vinnuveitanda sínum vegna starfs síns heldur missir hann húsnæðið þegar í stað, þ.e. án uppsagnarfrests við starfslokin.

Að mínu mati er algjörlega óviðunandi að leigjendur þurfi að sæta því að búa við lakari réttarstöðu en almennt gildir af þeirri ástæðu einni að þeir hafi fengið húsnæði á leigu hjá vinnuveitanda sínum. Vissulega getur vinnuveitandinn haft mikla hagsmuni af því að geta ráðstafað húsnæðinu til annars starfsmanns en ég tel það ekki geta réttlætt að þeim starfsmanni sem þar býr sé gert að yfirgefa það þegar í stað við starfslok. Þess í stað verður að veita viðkomandi ráðrúm til að bregðast við hinum breyttu aðstæðum sem starfslokum fylgja og finna sér nýtt húsnæði. Nógu íþyngjandi er að missa bæði atvinnu sína og húsnæði, hvað þá að þurfa að rýma og skila húsnæðinu til vinnuveitandans strax við lok ráðningarsambandsins. Í því efni er nauðsynlegt að löggjafinn láti húsnæðisöryggi leigjenda vega þyngra en hagsmuni vinnuveitenda af því að geta ráðstafað hinu leigða íbúðarhúsnæði til annars starfsmanns.

Með því frumvarpi sem hér er mælt fyrir eru því lagðar til breytingar á 50. gr. húsnæðislaga. Lagt er til að í stað þess að leigusamningur falli sjálfkrafa niður án sérstakrar uppsagnar og uppsagnarfrests við lok ráðningarsambands þurfi að segja upp leigusamningnum skriflega. Þannig verði báðum aðilum samningsins, starfsmanni og vinnuveitanda, heimilt að segja upp leigusamningi í tengslum við starfslok leigjandans en það gerist ekki sjálfkrafa. Ef leigusalinn segir upp samningnum er lagt til að almennur uppsagnarfrestur gildi samkvæmt 56. gr. húsaleigulaga, hvort sem gerður hefur verið tímabundinn eða ótímabundinn samningur. Það var rakið áðan að uppsagnarfrestur ótímabundins samnings um íbúðarhúsnæði er annaðhvort 6 eða 12 mánuðir eftir aðstæðum hverju sinni. Hins vegar er það meginregla húsaleigulaga að um tímabundna samninga gildi ekki ákveðinn uppsagnarfrestur heldur renni slíkir samningar út á umsömdum degi og þannig sé ekki hægt að segja þeim upp á gildistíma samningsins.

Með frumvarpinu er aftur á móti lagt til að uppsögn tímabundinna leigusamninga verði heimiluð í tengslum við starfslok leigjenda enda geti bæði starfsmaður og vinnuveitandi haft ríka hagsmuni af því að losna undan samningsskuldbindingum sínum við þær aðstæður vegna breyttra forsenda, hvort sem samningur er tímabundinn eða ótímabundinn. Veita þarf vinnuveitanda svigrúm til þess að segja upp slíkum samningi þannig að annar starfsmaður geti fengið húsnæðið á leigu en þó innan ákveðinna tímamarka og með þeim hætti að sá starfsmaður sem láti af störfum missi húsnæðið ekki þegar í stað við starfslokin, heldur eigi rétt á uppsagnarfresti af hálfu leigusalans.

Líkt og fram hefur komið er þá miðað við að gerður hafi verið tímabundinn leigusamningur verði uppsagnarfresturinn jafn langur og ef um ótímabundinn samning hefði verið að ræða, verði frumvarp þetta að lögum. Ljóst er að starfsmaður getur einnig haft hagsmuni af því að losna undan leigusamningi sem hann hefur gert við vinnuveitanda sinn komi til slita á ráðningarsambandi þeirra. Hafi viðkomandi til að mynda flutt á tiltekinn stað gagngert vegna umrædds starfs og fengið þar á leigu íbúðarhúsnæði hjá vinnuveitanda kann t.d. svo að vera að hann vilji snúa aftur heim eftir starfslokin. Einnig gæti hann viljað flytja eitthvað annað til að hefja nýtt starf. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að leigjandinn sé ekki bundinn uppsagnarfresti í marga mánuði eftir að ráðningarsambandi hans við leigusalann lýkur. Má þannig koma í veg fyrir að leigjandi þurfi að greiða leigu út uppsagnarfrest á húsnæði sem hann hefur ekki lengur not fyrir.

Með frumvarpinu er því lagt til að leigjandi geti allt að átta vikum frá lokum ráðningarsambands sagt upp leigusamningnum og taki uppsögnin þá þegar gildi. Þannig fái leigjandinn nauðsynlegt svigrúm til að vinna úr þeim breyttu aðstæðum, finna sér nýtt húsnæði og rýma íbúðina en losni undan skuldbindingum sínum strax við uppsögn samningsins. Þykir átta vikna frestur veita leigjanda nauðsynlegt svigrúm til að bregðast við breyttum aðstæðum en jafnframt þykir mikilvægt að við ákvörðun þeirra tímamarka sé litið til hagsmuna leigusalans af því að fyrir liggi eins fljótt og unnt er hvort leigjandi hyggist segja upp leigusamningi á grundvelli umræddrar sérreglu. Að sama skapi er gert ráð fyrir að heimild leigusalans til að segja upp leigusamningnum á grundvelli sérreglunnar verði bundin sama fresti en að honum liðnum gildi almennar reglur um heimildir beggja aðila leigusamningsins til uppsagnar.

Frumvarpinu er þannig ætlað að bæta réttarstöðu þeirra sem hafa fengið húsnæði á leigu hjá vinnuveitanda sínum vegna starfs síns og auka þar með húsnæðisöryggi viðkomandi.

Þetta frumvarp fór í samráðsgátt og komu nokkrar umsagnir um það og í framhaldi af því voru gerðar breytingar í samstarfi við hagsmunasamtök í ferðaþjónustu annars vegar og haft samráð við aðila vinnumarkaðar og ASÍ hins vegar.

Ég legg til að frumvarpið fari nú til hv. velferðarnefndar. Mikilvægt er að það fái þar góða umræðu og góðan umsagnartíma þannig að öllum gefist færi á að veita umsögn um málið og þá breytingu sem hér var mælt fyrir.