149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

Þjóðgarðastofnun og þjóðgarðar.

778. mál
[19:01]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Eftir sem áður, af því að við erum enn að tala um Þingvelli og Þingvallanefnd, er það alveg klárt í mínum huga að Alþingi, ef þetta nær fram að ganga, mun áfram hafa yfirráðarétt á vissan hátt yfir þessum þjóðgarði, með því að sumpart er nefndin til ráðgjafar, sumpart hefur hún neitunarvald. Við erum nýbúin að samþykkja stefnuplagg, stefnuskrá skulum við segja, með grunnstefnu um sumarbústaði, að áfram skuli unnið að því að smám saman verði þessar lóðir endanlega að hinum eiginlega hluta þjóðgarðsins. Við erum að vinna núna grunnstefnu um atvinnu í þjóðgarðinum. Það er grunnstefna um sjálfbærni í þessu stefnuplaggi. Það er grunnstefna um hvernig ekki skuli byggja neitt á völlunum framar, allt skuli vera ofan gjár til vesturs. Og það er líka grunnstefna um að samráð skuli vera við sveitarfélögin í kring og meira en það, enn fremur almenning sem á náttúrlega fullan rétt á því líka.

Ég ítreka að það er margt sem frekar þarf að ræða en akkúrat samskipti tilvonandi Þjóðgarðastofnunar og Þingvallanefndar vegna þess að það er býsna ljóst samkvæmt (Forseti hringir.) frumvarpinu hvernig hlutverkaskiptingin verður.