149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

staða Landsréttar.

[15:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þessa fyrirspurn. Nú er það svo að hæstv. dómsmálaráðherra er hér líka til svara — og fer með málið, svo ég haldi því til haga. Að beiðni hæstv. dómsmálaráðherra hafa verið haldnir tveir fundir með formönnum stjórnmálaflokkanna til upplýsingar um þetta mál. Þar hefur verið tekin sú ákvörðun að óska eftir því að efri deild Mannréttindadómstóls Evrópu taki þetta mál til umfjöllunar. Nú liggur ekki fyrir hvenær sú ákvörðun verður tekin, um hvort efri deildin taki málið til umfjöllunar eða ekki.

Ástæður þess eru margháttaðar. En ég leyfi mér að rifja það hér upp að það er m.a. einmitt vegna þess að við erum öll sammála um að réttaröryggi þurfi að vera tryggt. Þessi dómur varðar grundvallardómstig og skipan þess í landinu. En einmitt líka vegna þess að túlkun þessa dóms hefur verið á reiki — og eins og hv. þingmanni er kunnugt hafa sérfræðingar ekki verið sammála um hvernig eigi að túlka þennan dóm, sérstaklega að því marki að flestir telja að hann varði fyrst og fremst þá fjóra dómara sem ekki voru í hópi þeirra 15 efstu á lista hæfisnefndar. Því hefur þó verið haldið fram af sérfræðingum að það sé ekki hafið yfir vafa að málið varði alla 15 dómarana.

Það er m.a. vegna þess rökstuðnings sem birtist í dómi Mannréttindadómstólsins um aðkomu Alþingis að málinu og afgreiðslu þess á málinu.

Því held ég að það sé mjög mikilvægt að við fáum úr því skorið í fyrsta lagi hvort yfirdeildin taki málið til skoðunar eða ekki. Taki hún til skoðunar hvort hún kjósi að bæta við rökstuðning neðri deildar Mannréttindadómstólsins, sem eru fordæmi fyrir og kann að verða til að skýra túlkunina á þeim dómi, tel ég alveg morgunljóst að hæstv. dómsmálaráðherra mun bregðast við hvað varðar skipan réttarins til að hann geti starfað eðlilega.