149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

aðgengi að ferðamannastöðum.

[15:26]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina, sem er bæði áhugaverð og mikilvæg. Það er alveg rétt að þess eru dæmi að einstaklingar hafi gripið til þess ráðs að rukka inn á sín svæði. Það hefur undanfarin ár oft komið til umræðu opinberlega og í fjölmiðlum á hvaða heimildum það byggi, hvað megi og hvað megi ekki í þessu efni.

Það er vinna í gangi, t.d. í umhverfisráðuneytinu með fulltrúum annarra ráðuneyta, m.a. mínu, um það í grófum dráttum hvað almannaréttur þýði raunverulega. Það sem mér hefur fundist vanta í þá umræðu — og almannarétturinn er, eins og hv. þingmaður nefnir, aldagamall og mikilvægur, hann á sinn stað í hjörtum okkar allra og hjá íbúum annarra landa er sambærilegur réttur líka til staðar — er hvað hann þýði nákvæmlega, lagalega, og hvernig hann þróist með tíð og tíma.

Hann var til staðar á fyrri tímum, m.a. fyrir fólk til að komast á milli staða. Nú erum við með aðrar leiðir til þess, við erum með samgöngukerfi og aðrar leiðir til að komast á milli staða og að því leytinu til hlýtur þessi almannaréttur að þróast einhvern veginn með því. Það getur t.d. ekki flokkast sem almannaréttur að margar rútur komi á einn stað — fyrir þá sem þar sitja — til að njóta þeirrar náttúru eða þess staðar sem þær koma til.

Af hverju segi ég þetta? Það er aðallega út frá því að við verðum að hafa einhver tæki og tól til að vernda þá náttúru sem nýtt er. Sömuleiðis þurfum við að stíga varlega til jarðar þegar kemur að því að hefta með einhverjum hætti rétt landeigenda, bænda víða um land, sem vilja ráðstafa sínu landi með ákveðnum hætti. (Forseti hringir.)

Að þessu leyti munum við þurfa að ræða þetta mál hér. Væntanlega koma einhver frumvörp um það og þetta mun líka eiga sér stað í langtímastefnumótun vegna þess að þetta fer um kima samfélagsins.