149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

kolefnishlutleysi við hagnýtingu sameiginlegra auðlinda og eigna ríkisins.

609. mál
[16:14]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka bæði hv. þingmanni og hæstv. ráðherra fyrir mikilvægar spurningar og mikilvæg svör. Okkur gengur hægt, ég segi ekki of hægt ef við sláum í klárinn, að hraða okkur að ásættanlegu marki í loftslagsmálum. Þá á ég t.d. við Parísarsamkomulagið og þetta 1,5° markmið sem þar er. Stjórnvöld leika stórt hlutverk í þessu öllu saman ásamt einstaklingum, samtökum, sveitarfélögum og fyrirtækjum. Ég segi stórt hlutverk og þess vegna er mikilvægt að hyggja að kolefnishlutleysi í starfsemi ríkisins og ég hvet til dáða í þessum efnum í anda kolefnishlutlauss Íslands fyrir árið 2040. Við heyrðum hér fyrr í dag um alvarleika loftslagsmála og þá langar mig að upplýsa að til er gróft mat á kostnaði heimsbyggðarinnar við að ná þessu 1,5° marki, það eru 23.000 milljarðar bandaríkjadala, 23 trilljónir bandaríkjadala, og ef við náum þessu ekki fyrr en með 2° markinu verða trilljónirnar 32.