149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[14:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ræðuna. Það var margt gott í henni. Ég vil draga fram að hann eins og forverar hans í starfi, alveg aftur til 2005, hefur lagt blessunarlega mikla áherslu á mannréttindi. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra haldi áfram á þeim sprota, ekki síst þegar kemur að jafnrétti kynjanna, valdeflingu kvenna o.s.frv.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er afstaða hans gagnvart nýlegri ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um kynferðisofbeldi í stríði, að því skuli ekki beitt sem vopni? Kerfisbundið er verið að beita nauðgunum í stríði og það var verið að fara gegn því. Bandarísk yfirvöld — og mig langar að fá viðhorf hæstv. ráðherra gagnvart því — beittu sér gegn því orðalagi sem hafði verið unnið að mjög lengi og útvötnuðu það. Ég sá að bæði Bretar og Þjóðverjar sögðu: Bandarísk stjórnvöld bera ábyrgð á því að þessi ályktun var í raun útvötnuð. Bandaríkin gerðu það m.a. af hræðslu við að verið væri að taka undir fóstureyðingar með einhverjum hætti og síðan hafa núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum — það er algjörlega búið að kúvenda stefnunni þar — einnig lagst gegn orðinu kyngervi eða „gender“ eins og greint hefur verið frá.

Mig langar að vita viðhorf ráðherra til þessarar afstöðu Bandaríkjanna, hvort hann sé sáttur við ályktunina eins og hún lítur út núna miðað við þau drög sem voru. Síðast en ekki síst spyr ég: Hvað gerðu íslensk stjórnvöld til að draga fram sína stefnu? Reyndu íslensk stjórnvöld að tala fyrir markvissari ályktun en þeirri sem var samþykkt? Reyndu þau að ræða við Bandaríkjamenn um að taka skynsamlega á þessum málum en ekki með þeim hætti sem nálgunin síðar varð?