149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[14:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svarið. Hann er náttúrlega ekki fyrsti ráðherrann í sögunni til þess að reyna að efla viðveru okkar í Brussel eða fylgjast með EES-samningnum. Vissulega var það þannig um tíma þegar ESB-sóttin greip um sig að dregið var úr áhuga manna á EES-samningnum, sem var mjög miður. Menn áttu að sjálfsögðu að passa upp á hann samhliða þessu brölti við að reyna að ganga í Evrópusambandið.

Það fyrirkomulag sem EES-samningurinn býður upp á er hin svokallaða salamí-taktík, líkt og við sjáum núna með landbúnaðinn og ófrosna kjötið, þ.e. eitthvað er innleitt sem menn halda að sé saklaust, síðan tekur við eitt af öðru og svo eitthvað meira og stærra, sem gerir það að verkum að við sitjum uppi með svarta pétur, sem við höfum ekki viljað.

Ég er sammála ráðherra, það þarf að vinna heimavinnuna til að koma í veg fyrir að slíkt gerist.