149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[16:30]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta andsvar. Það er alveg rétt að við sem þjóð hér í norðri getum líka lagt mikið af mörkum í umræðu um frjáls viðskipti. Við sjáum ógnir í þessu efni, stjórnmálaleiðtoga, eins og ég nefndi, sem boða tollamúra og finnst það sjálfsagt í umræðu árið 2019. Þar getum við einmitt staðið keik og talað fyrir frjálsum viðskiptum og því megum við ekki gleyma.

Það er líka rétt sem hæstv. ráðherra kemur inn á að umræða þarf að fara fram um alþjóðamál og alþjóðasamstarf, hvaða kostir eru í alþjóðasamstarfi, hverjir eru gallarnir, hvað við fáum út úr því. Því að það er svo margt sem fylgir alþjóðasamstarfi í dag sem við tökum sem algerlega sjálfsögðum hlut.

Við tökum lífskjörunum sem því fylgja sem sjálfsögðum hlut, við tökum frelsinu sem því fylgir sem sjálfsögðum hlut, við tökum viðskiptunum sem því fylgja sem sjálfsögðum hlut. Þetta allt er nefnilega ekki sjálfsagt og þetta getur breyst ansi hratt. Það er okkar að standa vörð um það, sama hvort það er með umræðu hér í þessum sal, inni í hv. utanríkismálanefnd eða á samfélagsmiðlum eða í samfélaginu öllu. Við verðum að halda fólki upplýstu, taka umræðuna, og það þarf að gera sér grein fyrir því að það er ansi mikið undir þegar m.a. EES-samstarfinu er ógnað.