149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[17:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leiðrétta að hann hafi verið að vísa til mála sem snerta Ísland en ekki að tala á heimsvísu. Ég er alveg sammála því að flestir á Íslandi vilji ekki hverfa til baka. En það er rosalega margt óunnið samt.

Ég er sammála því sem hefur verið talað um, að við stöndum okkur ofsalega vel á ýmsum mælanlegum mælikvörðum, en það eru aðrir hlutir sem er kannski erfiðara að festa fingur á og erfiðara að setja lög um sem skipta líka máli þegar kemur að jafnréttismálunum.

Eins og hæstv. ráðherra hef ég átt samtöl við erlenda þingmenn sem hafa viljað ræða jafnréttismálin. Eitt af því sem sendinefndin úr utanríkismálanefnd sem fór til Tókýó fyrir nokkrum árum talaði um, af því að þar var lögð mikil áhersla á þátttöku kvenna á vinnumarkaði, var mikilvægi þess að um leið og konur taka aukinn þátt á vinnumarkaði verður karlinn að taka meiri þátt inni á heimilinu. Annars gengur þetta ekki upp, annars er það bara aukið álag á konur.

Mér finnst mikilvægt og vil brýna hæstv. ráðherra í því, af því að hann er í svo góðri stöðu til þess að eiga samtöl, að muna líka eftir þeim málum sem eru kannski ekki jafn auðmælanleg en skipta gríðarlega miklu máli til að okkur verði í alvörunni ágengt í að koma á alvörukynjajafnrétti. (GÞÞ: Á ráðherrann að vera duglegri heima?) Heima og alls staðar á erlendum vettvangi. Ég er að brýna ráðherrann til góðra verka.