149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2018 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

656. mál
[11:19]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2018. Þingsályktunartillagan er um fjármálaþjónustu og breytingu á þeim viðauka. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín aðila úr utanríkis- og fjármála- og efnahagsráðuneytinu en með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun vegna fjármálaþjónustuviðaukans við EES-samninginn og fella inn í samninginn tvær gerðir.

1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/14/ESB frá 21. maí 2013 um breytingu á tilskipun 2003/41/EB um starfsemi og eftirlit með stofnunum sem sjá um starfstengdan lífeyri, tilskipun 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um verðbréfasjóði og tilskipun 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða að því er varðar oftraust á lánshæfismat.

2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/91/ESB frá 23. júlí 2014 um breytingu á tilskipun 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um verðbréfasjóði að því er varðar störf vörsluaðila, starfskjarastefnu og viðurlög. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 10. ágúst 2019 vegna þessa máls. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Með tilskipun 2013/14/ESB eru gerðar breytingar á þremur tilskipunum á sviði sjóða, þ.e. tilskipun 2003/41, um starfstengda eftirlaunasjóði, tilskipun 2009/65, um verðbréfasjóði og tilskipun 2011/61, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Í tilskipuninni er kveðið á um að lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og fagfjárfestasjóðir skuli ekki notast eingöngu við lánshæfismatseinkunn þriðja aðila þegar áhætta við mat á fjárfestingu er metin. Markmiðið er að auka gæði fjárfestinga nefndra sjóða og auka fjárfestavernd. Gerðin hefur engin áhrif á íslenska lífeyrissjóði.

Með tilskipun 2014/91/ESB eru gerðar breytingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði. Tilskipuninni er ætlað að bæta upp þá veikleika sem hafa komið í ljós í þessu verðbréfasjóðs-regluverki og sem leitt hafa til eignataps fyrir fjárfesta. Þá er leitast við að auka öryggi fjárfesta með ákvæðum um skýrara hlutverk vörsluaðila, nýjum reglum sem fela í sér að rekstrarfélögum beri að setja sér sérstaka starfskjarastefnu fyrir starfsmenn og aðra aðila sem taka ákvarðanir sem hafa áhrif á áhættutöku verðbréfasjóða og rekstrarfélaga og með ákvæðum um samræmingu á lágmarksvaldheimildum eftirlitsaðila.

Innleiðing tilskipananna kallar á lagabreytingar og er gert ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra leggi á haustþingi 2019 fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, auk afleiddra breytinga.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt og undir það rita sú sem hér stendur, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Logi Einarsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Smári McCarthy og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.