149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

Fangelsismálastofnun og tekjur af vinnu fanga.

[15:07]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er stutt síðan þetta svar kom hingað í þingið og ég spurðist sjálf fyrir um ýmislegt sem skarast kannski aðeins við það sem hv. þingmaður spyrst fyrir um hér. Eins og gengur byggir þetta svar á upplýsingum frá Fangelsismálastofnun.

Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni, eða ég tek það alla vega til mín að skoða það nánar hvort ekki sé hægt að gera betur í því efni og vera með a.m.k. með einhvers konar yfirlit þrátt fyrir að það sé ekki sundurgreint eins og sakir standa. Hv. þingmaður spyr hvers vegna ekki sé hægt að birta frekari upplýsingar og hvað þurfi til til þess að hægt sé að birta a.m.k. meiri upplýsingar en nú er gert. Ég segi það hér að ég skal fara strax í það að fá nánari svör við því af hverju það er ekki svo og hvað þurfi að gera til að hægt sé að bregðast við þessu.