149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

einkaframkvæmdir í heilbrigðiskerfinu.

[15:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Einu sinni var flokkur sem talaði um að mikilvægast væri að horfa til almannahagsmuna (Gripið fram í.) og minna á einkahagsmuni, en einhverra hluta vegna talar þessi sami flokkur hér ítrekað fyrir hagsmunum þeirra sem eru seljendur heilbrigðisþjónustu á einkamarkaði. (ÞorstV: Við erum að tala fyrir hagsmunum sjúklinga.)

Virðulegi forseti. Það er líka mikilvægt að halda því til haga að þegar lög um Sjúkratryggingar Íslands voru sett var verið að gæta að þessum heildarhagsmunum. Hv. þingmanni til upprifjunar var Guðlaugur Þór Þórðarson þá heilbrigðisráðherra og aðstoðarmaður heilbrigðisráðherrans heitir Hanna Katrín Friðriksson. Þá var tekin sú ákvörðun að samþykkja lög þess efnis að ekki væri hægt og að það væri ólíðandi að tína út ábatasömustu þjónustuþættina til þess eins að hagnast á veiku og slösuðu fólki. Við þurfum að horfa til heildarinnar. Ég er í þessu embætti til að gæta að heildarhagsmunum og þar með talið að standa vörð um opinbert heilbrigðiskerfi.