149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aldeilis prýðilega ræðu. Hún fór mjög vel yfir ýmsar rannsóknir sem gerðar hafa verið á því hvernig aukið aðgengi eykur áfengisdrykkju. Við Íslendingar þurfum ekki einungis að treysta á rannsóknir annars staðar frá vegna þess að við höfum þegar gert tilraun sjálf, fyrir nokkuð löngu, þegar við lögleiddum áfengan bjór árið 1989.

Margir meðmælendur frumvarpa sem hafa dunið yfir hafa spurt, m.a. þann sem hér stendur, hvort menn vilji skrúfa tímann til baka og banna bjórinn o.s.frv. Það gerum við náttúrlega ekki. En við þurfum hins vegar að læra af því — og ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála um það — sem við höfum þegar gert. Árið 1988 var neysla á hreinum vínanda á mann á Íslandi um það bil 4,7 lítrar, hún var 7 lítrar árið 2012. Hún er komin á níunda lítrann núna. Ég geri ráð fyrir því að aukningin frá 2012 hafi farið ofan í ferðamenn að einhverjum hluta.

Mig langaði aðeins til að fara yfir það með hv. þingmanni hvort hún sé mér sammála um að við þurfum í sjálfu sér ekki að leita yfir pollinn til að finna okkur dæmi um að aukið aðgengi eykur áfengisdrykkju vegna þess að við höfum þau dæmi hér heima. Það hefur komið fram hjá landlækni að mesta söluaukningin á því tímabili sem liðið er sé ekki í gegnum verslanir ÁTVR heldur í gegnum veitingastaði sem hefur náttúrlega snarfjölgað á Íslandi.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að við þurfum í sjálfu sér — þótt þessar rannsóknir sem hún vitnaði til séu prýðilegar — nokkuð að fara út fyrir landsteinana til að finna okkur dæmi. Við höfum dæmi hér heima.