149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þá ágætu ræðu sem hún hélt hér áðan. Hún kom víða við og fór yfir margt sem segir í þessu frumvarpi og greinargerð o.s.frv. Ég hnaut um eina setningu sem hv. þingmaður sagði, um að við sæjum fram á aukið úrval og lægra verð. En þegar heildsöluendinn í áfengisdreifingu á Íslandi var gefinn frjáls fyrir nokkrum árum hækkaði það áfengisverð eitt og sér, ef ég man rétt, um 10–12%. Við höfum sagt að það sé ákjósanlegt að áfengisverð hækki en í því tilfelli vorum við að tala um að hækkunin fór ekki í ríkissjóð, hún fór í vasa heildsala.

Við erum að tala um að verð hækki, því að verð mun alveg klárlega hækka verði þetta frumvarp að lögum, sem gæti verið ágætt, en á sama hátt mun sú hækkun ekki fara í ríkissjóð, hún mun fara til matvörudreifingarverslana á Íslandi. Mig langaði því til að spyrja hv. þingmann hvort hún vildi taka undir það sem hér er sagt um aukið úrval og lægra verð, hvort hún sé sammála þessu og hvort henni þyki líklegt að þetta muni ganga fram, ef frumvarpið verður að lögum, að við fáum einmitt þá niðurstöðu.