149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:02]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég ræddi félagaþrýstinginn sem kemur kannski einmitt til út af landsbyggðinni og fáum verslunum. Við erum með ungt fólk í vinnu og mig langar í beinu framhaldi að taka það sem var verið að ræða aðeins áfram. ÁTVR er ekki rekin með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi og þrátt fyrir að hún skili okkur töluverðum fjármunum í kassann er það ekki markmið ÁTVR.

Ég hef áhyggjur af því að þessi hvati verði aftengdur núna ef frumvarpið nær fram að ganga, ef við ætlum að fara með þetta út í hina almennu matvöruverslun af því að við erum auðvitað með stóra markaðsráðandi aðila einmitt í þeim verslunargeira. Við höfum líka alveg heyrt því fleygt að keðjurnar hafi nú þegar tryggt sér ákveðnar sortir til sölu. Þetta frumvarp er að mínu mati fyrst og síðast unnið á forsendum verslunarinnar.

Ég er mjög mótfallin þessari nálgun eins og ég held svo sem að landið og miðin viti, svo margar ræður sem ég hef haldið um málið. Það er líka eitt af því sem maður sér alveg fyrir sér að það er öðruvísi að fara inn í matvöruverslun, hvort sem fólk er veikt fyrir eða ekki. Og þetta með aukninguna, 25% afsláttur af þessum bjór, gosbjórnum í dag eða eitthvað, það er svo margt sem verslunin gerir. Af hverju ætti hún að haga sér eitthvað öðruvísi? Ég spyr þingmanninn hvort hún sé ekki sammála mér í því að engin ástæða er til að ætla að verslunin hagi sér eitthvað öðruvísi með þessa vöru þegar kemur að því að reyna að selja sem allra mest. Það er alla vega mín tilfinning.