149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:29]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég ætlaði einmitt að segja við vin minn og félaga, hv. þm. Smára McCarthy: Það eru mörg málin sem eru leiðinleg. Manni finnist þau ekki öll skemmtileg, hvort sem þau koma fyrir aftur og aftur eða eru að koma upp í fyrsta skipti. Það er bara eins og það er. Það er mjög varhugavert að líkja þessu við eitthvað annað eins og hér var gert. Þetta er í rauninni engu líkt. Þegar ég las í fyrsta skipti þegar við vorum að fjalla um þessi mál hversu mikill skaðvaldur áfengi er, að það sé miklu meiri skaðvaldur en t.d. heróín, kom það mér mjög á óvart miðað við þá umfjöllun sem hefur átt sér stað um slík vímuefni. En öll eru þau hættuleg ef þeirra er neytt í óhófi.

Mig langaði aðeins að halda áfram með lýðheilsuvinkilinn. Það er auðvitað ákveðin breyting í þessu frumvarpi miðað við fyrri frumvörp. Kannski mætti leggja til að málinu yrði vísað frá nema hvað við myndum játast 20. gr., öllu öðru yrði bara hent. Þar er talað um að lýðheilsusjóður skuli leggja sérstaka áherslu á rannsóknir á áfengisneyslu, sem forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna á komandi árum. Ég held að það sé af hinu góða, burt séð frá þessu frumvarpi. Það væri það eina sem ég gæti a.m.k. samþykkt í því af því að við tókum út, eins og hv. þingmenn muna, markaðar tekjur þó að svo hafi verið sett inn breyting í þá veru að sambærilegar fjárhæðir ættu að renna þarna inn.

Það er þetta með að meta vilja þjóðarinnar og finna út hver hann er. Hv. þingmaður kom inn á að ítrekað hefur komið fram í mörgum könnunum í gegnum tíðina að það er ekki vilji fyrir því. En svo er siðferðilegi þátturinn, þetta einstaklingsfrelsi. Eru það mannréttindi að vera frjáls undan afskiptum ríkisins gagnvart sölu á áfengi? Erum við að skerða eitthvað óeðlilega neikvæða frelsið eða frjálsræðið? Kannski hv. þingmaður velti því aðeins upp með mér.