149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nefnilega það sem ég tók eftir í máli hv. þingmanns sem var hér á undan mér í andsvörum við hv. þingmann, að þetta væri orðið svolítið leiðinlegt.

En svo er þetta með að skilgreina okkur sem þingmenn. Íhaldssöm? Ég veit það ekki. Erum við skynsöm? Það má a.m.k. með sanni segja, eins og hv. þingmaður nefndi hér í sinni ræðu um hverjir það voru sem sendu inn jákvæðar umsagnir, að þær umsagnir voru eingöngu studdar verslunarlegum rökum. Það var ekki gerð tilraun til þess að reyna að draga úr öllum þeim neikvæðu áhrifum sem læknavísindin hafa bent á. Mér finnst það svolítið mikilvægt. Við fáum engin rök sem segja að læknavísindin, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin eða allir þessir læknar hafi bara rangt fyrir sér. Það er enginn sem hefur sagt það. Verslunarþættinum er bara haldið til haga.

Þess vegna hef ég sagt að ég skil ekki alveg af hverju það er verið að reyna að breyta fyrirkomulagi sem hefur reynst okkur ótrúlega vel.