149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:35]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski ekki miklu að svara í þessu. En auðvitað er það alveg rétt, hv. þingmaður, ég skynjaði alveg afstöðu þína í þessu. Ég veit hver hún er. Það má alveg segja að það sé rétt. Menn eru tengdir inn í aðra umræðu eins og þessar vangaveltur sem ég er að gera lítið úr — og er kannski óþarfi að gera lítið úr þeim. En ég bara segi það samt að ég vil gjarnan sjá og heyra afstöðu fólks almennt til þess hvaða réttindi fóstur eigi að hafa, í staðinn fyrir að snúa þessu upp á sjálfsákvörðunarrétt kvenna eða kvenfrelsi þeirra. Ef við komumst að því að fóstur eigi ekki að hafa nein réttindi fyrr en eftir 22 vikur getum við farið að tala um sjálfsákvörðunarrétt og kvenfrelsi. En við þurfum að komast að þeirri niðurstöðu. (Forseti hringir.) Það er samt þannig að um leið og (Forseti hringir.) fóstrið verður til öðlast það ákveðin réttindi.