149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:50]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra, nefndarálit í máli sem er risasiðferðisspursmál, risamál varðandi réttindi kvenna og sjálfsákvörðunarrétt er eiginlega ekki neitt. Ég hef sjálfur litið svo á að þetta mál snúist ekki eingöngu um sjálfsákvörðunarrétt eða kvenfrelsi, ekki frekar en að það snúi um kvenfrelsi, að geta labbað inn á Landspítalann og sagt: Þú átt að framkvæma hér aðgerð og eyða fóstrinu. Þú verður að vera fljótur, það eru að koma 22 vikur.

Ég sé ekkert sérstakt réttindamál í því, ekki frekar en að ég gæti gengið inn á Landspítalann og sagt: Heyrðu, ég hef ákveðið að taka eigið líf og þú átt að framkvæma það. Þetta er ekkert sjálfsagt í mínum huga. Það þarf að ræða miklu meira um þessi siðferðislegu og heimspekilegu atriði.

Svo kemur nefndarálit sem (Forseti hringir.) gefur okkur ekki ástæðu til að ætla að þetta mál hafi nokkuð verið rætt. Ég efast ekki um að það hafi heilmikið verið rætt í nefndinni en álitið gefur okkur ekki tilefni til að halda það.