149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Mér finnst tilefni til að koma hingað upp og þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir vel unnið frumvarp, bæði út frá sögulegu samhengi en líka til að færa okkur inn í nútímann og inn í framtíðina, og einnig hv. heilbrigðis- og velferðarnefnd fyrir að hafa farið mjög gaumgæfilega yfir alla þætti; upplýsingar sem liggja fyrir sem nýtast mér og öðrum vel til að geta tekið afstöðu út frá eigin sannfæringu og samvisku. Mér finnst þetta vera mikilvægur dagur. Við erum að undirstrika rækilega sjálfsákvörðunarrétt kvenna, frelsi kvenna, í þessu máli.

Mig langar til að beina einu sérstaklega til hæstv. ráðherra af því að ég veit að hún hefur sýnt því áhuga, en komið hafa fram ákveðnar áhyggjur varðandi skimanir í heilbrigðiskerfinu. Ég bið hæstv. ráðherra að fara sérstaklega yfir þá stefnu og hvernig á að standa að skimunum þannig að heilbrigðiskerfið eitt og sér taki ekki ákvörðun um stefnu í þeim efnum. En ég segi já.