149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:39]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er, eins og hefur margoft komið fram, umdeilt mál. Mér finnst hins vegar alveg ömurlegt að hlýða á umræðuna undir þeim formerkjum að verið sé að skipa fólki til skoðana eftir aldri, kyni eða stjórnmálaflokkum. Þetta er einfaldlega mál sem sker þvert á alla flokka. Hér hefur verið alhæft að miðaldra karlmenn séu á móti þessu máli. Seint verð ég nú sakaður um að vera drengur á fermingaraldri en ég er stuðningsmaður þessa máls og ég er Sjálfstæðismaður að auki, þannig að alhæfingar sem koma fram gera ekkert annað en að sýna mér fram á að þeir sem þannig tala eru ekki hæfastir manna til að taka ákvarðanir í svona máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Virðum skoðanir þeirra sem eru andstæðir okkur. Við þurfum ekki endilega vera sammála þeim, en tölum ekki niður til þeirra. Þetta er ekki þannig mál.

Virðulegur forseti. Ég styð málið.