149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[14:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er tvennt sem ég fyrir mitt leyti get sagt. Ég hefði gjarnan viljað haft rýmri tíma til að undirbúa þessa umræðu hér í dag, en það er eins og stundum vill verða, naumt skammtaður tíminn. En mér finnst skína í gegn í þessu fyrra svari þingmannsins að annars vegar sé fókusinn enn skerptur í þá veru sem við höfum stundum kallað marxíska stefnu í heilbrigðismálum. Og hins vegar sé upplifun þingmannsins að menn — kannski áfram og af sama meiði — reyni ekki að lágmarka þá sóun sem kann að verða í kerfinu.

En það er eitt atriði til viðbótar sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í. Nú er ég augljóslega ekki í velferðarnefnd, en ég held að fyrir þá sem horfa á og hlusta gæti verið æskilegt að fá aðeins betri útlistingu á því sem ég held að sé hárrétt ábending í nefndarálitinu, það er, með leyfi forseta, þar sem segir í niðurlagi 1. mgr.:

„Því er það óæskilegt að Landspítali verði fjármagnaður með DRG-greiðslum (Diagnosis Related Groups eins og það er kallað á ensku), enda mundi það skekkja allverulega aðstöðu annarra heilbrigðisstofnana.“

Þarna er væntanlega verið að horfa sérstaklega til heilbrigðisstofnana úti á landi. Mig langar að biðja hv. þingmann að fara aðeins dýpra í þetta, því að þetta er atriði sem auðvitað þarf að skoða sérstaklega því að aðstaðan víða á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni er með þeim hætti að ekki verður við unað.