149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[14:56]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er nefnilega nokkuð merkilegt. Við getum sagt að þessar DRG-greiðslur, sem kallast á ensku, með leyfi forseta, „Diagnosis Related Groups“, séu ákveðið líkan, ákveðin aðferðafræði, sem farið er eftir og er í sjálfu sér ágætistæki. Ég vil nú kannski ekki segja að þetta sé ekki nógu gott tæki, en það sem mun gerast ef við innleiðum þetta á Landspítala er að þá mun Landspítali geta tikkað í öll boxin sem mun segja okkur að þeir þurfi meira fjármagn til að geta staðið undir því — af því að þeir tikkuðu í öll boxin. Það þýðir að þetta er dýrasta plássið.

Það er svokallaður fráflæðisvandi. Meðan við höfum fólk inni á spítalanum liggjandi sem við mundum gjarnan vilja sjá á öðrum stað, mun tikkast, vegna þess, í öll boxin. Þannig að Landspítali mun segja: Við þurfum meira fjármagn vegna þess að við erum með svo marga.

En ef við mundum hugsa þetta aðeins öðruvísi, taka Landspítala út fyrir sviga í þessum DRG-greiðslum og segja að það séu aðrar heilbrigðisstofnanir sem eigi að njóta þessa kerfis, mundum við kannski bara hugsa þetta bara allt upp á nýtt. Þess vegna legg ég áherslu á að það sé skekkja gagnvart öðrum heilbrigðisstofnunum, af því að Landspítalinn hefur nú þegar á að skipa öllum fagstéttum sem okkur dettur í hug og þær kosta allar peninga.

Þannig að þetta er einhvern veginn alls ekki nógu gott eins og þetta er hugsað.