149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[14:59]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér við síðari umr. tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Ég held að það sé full ástæða til að þakka hv. framsögumanni nefndarinnar hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir vinnu hennar við þetta mál og raunar nefndinni allri fyrir þá vinnu sem snýr að því. Öfugt við það sem menn kunna að halda er það þannig í þessu máli að nefndin hefur í raun unnið nokkuð samhent og allir nefndarmenn hafa lagt gott eitt til í þeirri vinnu sem unnin hefur verið.

Komið hefur fram við umræðuna að nefndin fékk fjölmargar umsagnir og marga gesti. Margar af þessum umsögnum og athugasemdum, sérstaklega frá fagfélögum og við skulum segja beinum hagsmunaaðilum, sneru að því að ekki væri nægilega ítarlega fjallað um þeirra eigin hlut í stefnunni. Það væri til að mynda ekki nógu ítarlega talað um hjúkrunarheimilin, það væri ekki nógu ítarlega talað um sérfræðiþjónustu o.s.frv.

Þá er litið fram hjá þeirri grundvallarhugsun sem er í heilbrigðisstefnunni að hún er eins og séð úr 30.000 fetum, eins og hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir komst svo ágætlega að orði hér áðan. Horft er yfir sviðið með mjög breiðri linsu og stefnunni er ætlað að duga til langs tíma og margra ára.

Heilbrigðiskerfið okkar er stöðugt að breytast. Orðið hafa miklar breytingar bara á undanförnum fáeinum árum, á árunum á mínum fyrra starfsvettvangi urðu t.d. alveg gríðarlegar breytingar. Þar sem ég hef verið á vettvangi, eins og raunar fleiri nefndarmenn í hv. velferðarnefnd, þá sé ég að það væri að mörgu leyti óskynsamlegt að njörva niður hvern einasta þátt vegna þess að með því væri hætt við að við værum að útsetja stefnuna fyrir að verða annaðhvort ankannaleg eða hreinlega úrelt á allt of stuttum tíma. Því er þessi leið farin. Stefnan má sem sagt ekki vera of þröng ef hún á að duga út allt tímabilið.

Málefni aldraðra, forvarnir og endurhæfing eru áberandi þráður í athugasemdum margra og raunar einnig í athugasemdum og umræðum nefndarinnar. Nefndin er sammála um að þarna þurfi að taka sérstaklega vel á. Og þó að segja megi að í því geti falist öldrunarfordómar að sumu leyti að ætla að taka aldraðra sérstaklega út fyrir sviga í sjálfri stefnunni og fjalla sérstaklega um heilbrigðisþjónustu þeirra eða heilbrigðisstefnuna gagnvart þeim, að ímynda sér að eldra fólk þurfi að einhverju leyti einhverja aðra heilbrigðisþjónustu en þeir sem yngri eru, þá er það engu að síður svo að það eru sérstakar þarfir hjá þessum hópum. Hjá eldra fólki fléttast oft saman þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu og þörfin fyrir félagslega þjónustu. Þörfin fyrir stuðning við búsetu o.s.frv.

Nefndin tekur því undir þetta. Og raunar hefur heilbrigðisráðuneytið þegar tekið undir þetta í yfirlýsingum sínum undanfarnar vikur og mánuði. Þegar er farin af stað vinna í ráðuneytinu við að huga sérstaklega að stefnu í málefnum aldraðra. Ráðherra er þegar búin að óska eftir sérfræðiáliti og greinargerðum um stöðu heilabilaðra o.s.frv. Hvort sem það er að einhverju leyti umræðu innan nefndarinnar að þakka eða í rauninni bara verið að fylgja þeim anda sem m.a. kemur fram í greinargerð stefnunnar skal ég ekki segja. Alla vega er þegar verið að vinna á þessum vettvangi.

Nefndin fjallaði mjög mikið í máli sínu um mikilvægi þess að allir landsmenn hefðu jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Það kom raunar fram í andsvörum hér áðan og í ræðu hv. framsögumanns að ekki megi líta fram hjá því atriði og gleyma því. Þess vegna er fjallað sérstaklega um þætti eins og fjarheilbrigðisþjónustu, þó að það sé hárrétt sem fram kemur í áliti minni hluta nefndarinnar að auðvitað kemur fjarheilbrigðisþjónusta aldrei í staðinn fyrir hefðbundna heilbrigðisþjónustu. En hún getur sannarlega hjálpað til. Það treysti ég mér til að segja þar sem ég er einn af þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem unnið hafa við slíka þjónustu. Ég veit um kosti svona þjónustumódels, ef svo má að orði komast, en ég veit líka, og geri mér fulla grein fyrir því, að á því geta verið augljósir gallar. Þegar er farin í gang vinna við einn af mikilvægu þáttunum í sambandi við að tryggja öllum landsmönnum aðgengi að heilbrigðisþjónustu, þ.e. samþykkt þingsins um sjúkraflutninga. Var það ekki bara í síðustu viku, herra forseti? Ég held að ég muni það rétt. Ráðuneytið er því þegar farið af stað í þeirri vinnu.

Varðandi þá þætti sem menn hafa talað um, stigskiptingu þjónustunnar í fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu, þá er ég einn af þeim sem bent hafa á ákveðna togstreitu sem er á milli laga um heilbrigðisþjónustu þar sem þjónustan er skilgreind með tilteknum hætti sem grunnþjónusta og sem sérfræðiþjónusta o.s.frv., slíkar stigskiptingar. Það er í mínum huga í sjálfu sér ekki stórkostlegt vandamál. Þarna á milli er ákveðinn blæbrigðamunur sem mikilvægt er að við áttum okkur á. Það er líka mikilvægt að ráðuneytið átti sig á því, sem ég efast svo sem ekki um og það kom raunar fram á fundum nefndarinnar með fulltrúum ráðuneytisins. Þar er fyrsta stigs þjónusta, þ.e. heilsugæslan, eins og fleiri hv. þingmenn hafa komið hér inn á, langmikilvægasti þátturinn að mínu viti. Það er ekki bara það að efla heilsugæsluna sem apparat heldur líka að fjölga starfsfólki þar innan og auka menntun þess. Það verkefni er í fullum gangi.

Það er gaman að segja frá því að fyrir tveimur árum voru á Íslandi eitthvað í kringum 35 ungir læknar í námi í heimilislækningum, en næsta haust verður sú tala komin yfir 60. Þetta ásamt öðru sýnir í verki þá áherslu sem nú er í gangi til að reyna að efla heilsugæsluna í landinu. Það er vel.

Auðvitað er heilsugæslan miklu meira en bara heilsugæslulæknar. Hún er allt það samfélag sem er í kringum hana og allt hitt starfsfólkið líka. Þar skipta máli þættir eins og sálfræðiþjónusta, hjúkrunarþjónusta, heimahjúkrun, félagsráðgjöf, sjúkraþjálfun, hreyfiseðlar o.s.frv. En allir þessir þættir hafa einmitt verið til umræðu í ráðuneytinu og innan heilbrigðiskerfisins yfirleitt undanfarin misseri. Sem betur fer virðist það vera að raungerast núna, alla vega þessi misserin, að við setjum í alvöru meiri fjármuni og meiri orku í að efla heilsugæsluna. Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar er til að mynda eitt dæmi um það.

Mig langar svona í blálokin að nefna eins og eitt atriði í viðbót. Það er það hvernig við nýtum fjármuni í heilbrigðiskerfinu. Á Íslandi erum við með blandað heilbrigðiskerfi. Við erum búin að vera með slíkt heilbrigðiskerfi síðan 1909, a.m.k. síðan Læknafélag Reykjavíkur var stofnað, ég held að ég fari rétt með það ártal. Heilbrigðiskerfi á Íslandi hefur alla tíð verið blandað. Það er blanda af einkarekstri og opinberum rekstri. Þessi misserin og undanfarin fjölmörg ár hefur verið ágætissamstaða um það í samfélaginu að heilbrigðisþjónustan eigi að vera fjármögnuð af ríkinu. Um það er alla vega ekki mikill ágreiningur og ekki mikið deilt.

Það hefur hins vegar verið nokkur togstreita undanfarin misseri um áhersluna á einkarekstur á móti opinberum rekstri, hvort jafnvægið hafi skekkst á milli einkarekstrar og opinbers rekstrar. Staðreyndir málsins eru þær að undanfarin misseri hefur aukningin í heilbrigðisþjónustu og í kostnaði við heilbrigðiskerfið verið töluvert mikil á einkavængnum og að því leyti eru áherslur núverandi heilbrigðisráðherra eðlilegar að mínu mati. Verið er að reyna að bæta opinbera og ríkisrekna hluta kerfisins án þess þó að láta það koma sérstaklega niður á hinum hlutanum.

Skiptingin í dag er um það bil einn fjórði á móti þremur fjórðu. Ég geri frekar ráð fyrir því að þokkaleg samstaða sé um að við ætlum að vera áfram á þeim nótum. Það er enginn að tala um að ríkið taki yfir rekstur allra hjúkrunarheimilanna. Það er enginn að tala um að ríkið taki yfir rekstur allrar sjúkraþjálfunar í landinu o.s.frv. Og það er enginn að tala um að ríkið taki yfir rekstur allra einkastofa lækna eða annarra heilbrigðisstarfsmanna úti í bæ. Það er ekki svo.

Þessi rekstur er hins vegar, eins og annað heilbrigðisrekstur á Íslandi, undirorpinn samningum við Sjúkratryggingar Íslands. Eins og a.m.k. nefndarmönnum í hv. velferðarnefnd er kunnugt um þá höfum við ítrekað í vetur fengið bæði ráðuneytið og Sjúkratryggingar á fund til okkar til að ræða þau mál. Ég tel að þau séu í ágætisfarvegi þó að auðvitað sé alltaf auðvelt að segja að við vildum að hlutirnir gengju hraðar fyrir sig. En það eru alltaf tveir aðilar sem koma að öllum slíkum samningum og ég treysti því aðilar muni ná að landa samningum áður en langt um líður.

Herra forseti. Ég læt þessi orð duga og hlakka til að fá tækifæri til að greiða atkvæði með þessari stefnu þegar hún kemur til atkvæða í þinginu.