149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður telur allt valdframsal brot á stjórnarskrá gætum við ekki verið aðilar að neinum alþjóðasamningum. Það er ekki hægt að setja samasemmerki á milli valdframsals og brots á stjórnarskrá. Valdframsal er falið í persónulöggjöfinni, fjármálalöggjöfinni, NATO, alls konar alþjóðasamningum. Ég gæti tekið allan minn tíma hér í að telja það upp. Þar er ekki samasemmerki á milli. Það skal vera alveg skýrt að allir fræðimenn, nema þeir sem skrifuðu það álit sem Miðflokksmenn vísa í, halda því fram að ekki sé um brot á stjórnarskrá að ræða án fyrirvarans. Þriðji orkupakkinn sé ekki brot á stjórnarskrá án fyrirvarans. Það er líka niðurstaða ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar. Það er hægt að kynna sér á minnisblaði sem fylgir þingsályktunartillögunni. Meira að segja þeir fræðimenn sem hv. þingmenn leggja mest upp úr í álitsgerðinni komast að þeirri niðurstöðu að eins og þingsályktunartillagan sé í dag sé enginn lögfræðilegur vafi á því að það sé í samræmi við stjórnarskrá. Þarna er það komið kýrskýrt fram og það er gert aukalega. Ekki af því við teljum þess þurfa heldur af því að við sjáum þessi varúðarmerki og við tökum þau alvarlega. Mig langaði að benda á þetta.

Mig langaði líka aðeins að benda á þá lagalegu fyrirvara sem hv. þingmanni verður tíðrætt um. Það er ekki þannig að þeir komi seinna. Þingsályktunartillagan sem liggur fyrir er aflétting stjórnskipulegs fyrirvara frá þinginu, að leyfa ríkisstjórninni að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara. Þá mun ríkisstjórnin aflétta stjórnskipulegum fyrirvara eins og segir í þingsályktunartillögunni, með þeim fyrirvara sem skilgreindur er í greinargerð. Þingsályktunartillagan er ekki aflétting á stjórnskipulegum fyrirvara heldur heimild frá þinginu til ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin mun síðan leggja til innleiðingarreglugerð sem (Forseti hringir.) felur þetta í sér og þá strax; það kemur ekki seinna. Það er hin raunverulega aflétting stjórnskipulegs fyrirvara og mun fela í sér þá fyrirvara sem eru nákvæmlega skilgreindir í greinargerðinni.