149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

staða Landsréttar.

[16:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um þetta ótrúlega klúður sem okkur tókst að gera í sambandi við Landsrétt. Landsréttur átti að bæta réttarkerfið stórlega. Það var upphaflegi tilgangurinn. Því miður erum við búin að klúðra þessum málum og traustið get ég ekki ímyndað mér að nái neitt nálægt 47% eftir þetta ótrúlega klúður sem búið er að vera í kringum skipan þessara dómara.

Það sem ég hef áhyggjur af er að þarna er næstum einn þriðji af dómstólnum óvirkur. Það hlýtur að segja sig sjálft að þá safnast upp mál. Það er óásættanlegt í okkar kerfi að mál dragist á langinn.

Þá er spurning mín til ráðherra: Er hún eitthvað að skoða þessi mál? Hvernig á að bjarga því að dómstóllinn verði ekki eiginlega svo til óstarfhæfur vegna þess að mál dragast á langinn? Hvenær er reiknað með einhverri áætlun til að bregðast við? Eða er engin áætlun? Og ég spyr mig: Verður dómstóllinn þannig í langan tíma, eiginlega bara óstarfhæfur þannig að það safnast upp mál? Hvaða mál fá forgang? Verður það bara happa- og glappaaðferðin?

Það er ekki borið mikið traust til dómstólanna og ég segi fyrir mitt leyti að í þau fáu skipti sem ég hef þurft að fara fyrir dómstóla var það ekki traustvekjandi. Landsréttur væri betur staddur ef það hefði verið gengið almennilega í málið í upphafi.