149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

staða Landsréttar.

[16:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Mig langar að fara aðeins inn á þessa talpunkta. Einn af talpunktunum í þessu skjali, sem fjölmiðlar birtu, til þingmanna stjórnarliðsins frá ráðuneytinu, frá aðstoðarmanni ráðherra, er að þessir fjórir dómarar hafi verið löglega skipaðir. Það er rétt, en það er hálfsannleikur því að dómsmálaráðherra braut samt sem áður lög við skipan dómara.

Það er alltaf verið að reyna að færa orðræðuna einhvern veginn til, en við skulum bara hafa það alveg á hreinu: Héraðsdómur og Hæstiréttur og Mannréttindadómstólinn hafa allir komist að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hafi brotið lög við skipan þessara fjögurra dómara. Þannig er það bara.

Almennt varðandi varnir dómsmálaráðherra í þessu máli: Þeir sem vilja bera það saman við eitthvað geta borið það saman við varnir ríkisstjórnar Richards Nixons þegar menn voru að reyna að upplýsa Watergate-málið. Það er hlaðvarp, eða „podcast“, með leyfi forseta, sem heitir „Slowburn“, sem ég ráðlegg fólki að hlusta á. „Slowburn“, eða hægur bruni, svo við þýðum það. Þetta „podcast“ fer yfir allt ferli málsins á gríðarlega vandaðan hátt. Eitt af því sem gert var voru nákvæmlega svona talpunktar sem stjórnarliðum voru sendir og þeir síðan notaðir til að tala niður málið.

Það sem mér finnst alvarlegast við þessa punkta er að í þeim er verið að tala niður Mannréttindadómstól Evrópu. Það er ekki gott. Haldið er uppi vörunum fyrir dómsmálaráðherra með því að tala niður Mannréttindadómstólinn. Það er alveg rétt að hann hefur ekki valdumboð fyrir Ísland. Það er líka bara hálfsannleikur. Því að við erum búin að setja mannréttindasáttmála Evrópu inn í íslenska stjórnarskrá og út frá honum hefur Hæstiréttur iðulega horft til þess hvernig er dæmt í Evrópu. (Forseti hringir.)

Hálfsannleika er kastað fram ítrekað í þessu máli til að afvegaleiða umræðuna. Dómsmálaráðherra braut lög við skipan þessara fjögurra dómara.