149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

tækifæri garðyrkjunnar.

[16:47]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Garðyrkjubændur á Íslandi hafa sannað mátt sinn með því að standa sig prýðilega undanfarin ár, ekki síst eftir að tollar voru afnumdir. Margir voru hræddir við þá aðgerð en hún hefur reynst greininni mjög vel.

Það er mjög mikið af góðu starfi í gangi. Verið er að framleiða flotta lífræna vöru og draga úr pakkningum og öðru álíka. Reynt er að færast fram á við í merkingum á vörunni o.fl.

En aðstæður, kerfislegar aðstæður sem bændur búa við mættu vera betri. Vandinn er að miklu leyti að það kerfi búvörusamninga sem við búum við metur garðyrkjubændur minna en aðra bændur. Það er vandamál.

Með eðlilegra fyrirkomulagi mætti búa þannig um hnútana að garðyrkjubændur framreiddu ekki 7,6% af heildarmatvælum Íslands heldur blómstruðu hreinlega sem atvinnugrein og kepptu jafnvel í útflutningi.

Ég tel gagnrýni hv. málshefjanda um samkeppni við lönd þar sem mánaðarlaun nema tímakaupi á Íslandi í rauninni vera afvegaleidda. Er markmiðið að lækka laun garðyrkjubænda þannig að við verðum samkeppnishæfari við önnur lönd? Eða á að loka landamærunum? Ég held að hvorug leiðin sé í rauninni sniðug.

Samkeppni verður að vera á eðlilegum grundvelli. Ef við ætlum að standa okkur vel í garðyrkju á Íslandi verðum við náttúrlega að taka tillit til aðstæðna okkar. Þá þurfum við að ráðast í að sjálfvirknivæða og nútímavæða allt ferlið, sjálfvirknivæða aðgerðirnar og nútímavæða regluverkið, eða ryðja úr vegi ýmiss konar kerfislægum hindrunum sem valda okkur vandamálum. Það væri kannski eðlilegasta fyrsta skref (Forseti hringir.) að ráðast í greiningu á því nákvæmlega hvaða þættir hindra uppgang garðyrkjubænda mest.