149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:29]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Nei, ég hef hvergi séð eða fengið að vita neitt þar sem ég hef setið í nefndum um orkupakka fjögur, þó að ég viti að hann sé kominn inn á borð hjá einhverjum aðilum úti í samfélaginu til skoðunar. Ég hef hins vegar bent á að það hafa komið sérfræðingar, eins og fyrir fjárlaganefnd, ég man eftir því, og talað um að ríkinu væri í rauninni bannað samkvæmt EES-samningnum að hamla flæði vöru.

Orkan er skilgreind sem vara en þá er sagt: Já, en það eru svo margar aðrar reglur sem þarf þá að líta til og ríkið ræður þessu sjálft og getur hamlað út af umhverfismati og leyfi til að leggja sæstrenginn og alls konar álitaefnum sem eru dregin fram. En staðreyndin er sú að það verður látið reyna á þetta. Það er alveg á hreinu. Orkan er vara, við erum í EES-samkomulaginu og við erum alltaf að fara lengra og lengra inn á markaðinn. Það er ekki flóknara en það. Þannig að ég tel að við séum í rauninni að brjóta, eins og ég segi, samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með því að ætla að hamla þessari vöru á markað.

Þannig að það er ekkert spurningin hvort heldur bara hvenær verður látið reyna á það og það verða alltaf dómstólarnir sem eiga síðasta orðið. Engir lögspekingar hér heima eða neitt. Ég vil bara ítreka það af því að ég hef tækifæri og smá blikk að það hefur enginn lögspekingur alhæft um það nokkurs staðar, eins og hefur margkomið fram, að það sé hafið yfir allan vafa. Það er aldrei sem lögfræðingar og prófessorar í lögfræði, lögspekingar alhæfa um slíkt. Til þess eru dómstólar. Til þess að fá niðurstöðu í lögfræðilegum álitaefnum sem kunna upp að koma.

Orkupakki fjögur er á leiðinni, já, ekki spurning. Nei, ég hef aldrei séð hann.