149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta er mjög athyglisverður punktur hjá hv. þingmanni. Er orkupakki þrjú eftirsóknarverður fyrir suma Íslendinga, ekki þjóðina sem heild? Auðvitað hefur maður velt því fyrir sér. Það er margt í þessu umhverfi sem við verðum að setja í samhengi og bera saman við löndin í kringum okkur. Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að fyrirtæki eins og Landsvirkjun telur þetta vera vænlegan kost. Jú, hún hlýtur að vera sú að þeir geti selt orkuna úr landi. Það hlýtur að liggja í augum uppi. Það er ekki hægt nema með því að innleiða þennan orkupakka, þessa tilskipun. Svo þegar sæstrengurinn er kominn þá er allt til reiðu að selja orkuna úr landi. Þá gilda bara markaðslögmálin um framboð og eftirspurn og verð. (Forseti hringir.) Þá held ég að neytendur á Íslandi verði annars flokks.