149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er fengur að ræðu hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar. Hann er búinn að leita undanfarin dægur að týndu fyrirvörunum, eins og við segjum stundum, og mér heyrist á honum að leitin hafi ekki borið árangur. Það er reyndar ein kenning sem ég hef, vegna þess að mér finnst þetta svo dularfullt. Mér finnst svo dularfullt hvað margir þingmenn stjórnarflokkanna sem lýst höfðu efasemdum um þennan orkupakka, fyrir nú utan það að tveir stjórnarflokkanna voru með nýlegar annars vegar landsfundarsamþykktir og hins vegar miðstjórnarsamþykktir um að ekki stæði til að tengja Ísland orkustefnu Evrópusambandsins með einhverjum hætti.

Nú kemur hins vegar í ljós að búið er að skipa þessum þingmönnum öllum í sveit sem gengur í takt. Ég er búinn að velta því mikið fyrir mér hvað hafi orðið til þess að þessir ágætu menn og konur skiptu um skoðun hópum saman. Mér hefur helst dottið í hug að það sé vegna þess að þeim hafi verið sagt að fyrirvarar þeir, sem nú hefur komið í ljós að eru ekki til og standast ekki, breyttu málinu. Ég hef einhvern veginn trúað því að þetta ágæta fólk hafi verið blekkt til að ljá málinu lið með því að því var sagt: Hér eru fyrirvarar sem negla þetta mál alveg í gadda á allan hátt. Áhættan er engin. Svona verður þetta haft. Þetta er það sem ég held.

Mig langar til þess að fá (Forseti hringir.) hugmyndir hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar um þetta mál, hvað honum finnst.