149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:33]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendingar hans. Ég var staddur í lestri á reglugerð ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem ekki er búið að gefa út en ég hef fengið send drög að henni. Hún er svo sem ekki löng, fjórar greinar, og mun verða einhvern tímann fljótlega verða undirrituð í iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunarráðuneyti hér uppi í Skuggasundi í Reykjavík og gefin út þar. Menn vita að reglugerðir á Íslandi eru skör lægra en lög, herra forseti. En reglugerðir í Evrópusambandinu hafa miklu meira vægi innan evrópska svæðisins en títt er hér á Íslandi. Það er allt annað. Reglugerðir Evrópusambandsins hafa miklu meira vægi en reglugerðir á Íslandi.

Þess vegna spyr ég: Ef þetta er lagalegi fyrirvarinn, reglugerð gefin út af ráðherra í ríkisstjórn Íslands, þá segi ég bara: Fjallið tók jóðsótt og það fæddist lítil mús.