149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:08]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Maður spyr sig hvernig þeir geta fundið sig í því að horfa upp á þetta, segjum eins og hæstv. utanríkisráðherra, að það sé í hans stuðningsmannaliði, sem sagt í stuðningsmannaliði þessa máls, sé verið að varpa hérna fram alls konar kenningum um það í hverju þessi lagalegi fyrirvari ætti að felast. Ég meina, af hans hálfu var lagt upp með það að óhætt væri að samþykkja þetta mál af því að lagalegur fyrirvari verði. Svo horfir hann upp á það að dögum saman er verið að halda fram hinu og þessu og öðru um það í hverju þessi lagalegi fyrirvari liggur í framhaldi af því að hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, í svari við andsvari frá mér upp úr klukkan fjögur 15. maí, upplýsti málið á sinn hátt. Síðan hefur þessi leit staðið yfir og á þetta horfir hæstv. utanríkisráðherra. Af hverju tekur hæstv. ráðherra ekki af öll tvímæli um þetta?

Það mætti líka sömuleiðis nefna hv. formann utanríkismálanefndar, sem er þó hér á landi. Af hverju leggur hún sig ekki fram, hv. þingmaður, um það í fjarveru utanríkisráðherra að greiða úr þessari flækju? Er þetta til álitsauka fyrir ríkisstjórnina? Er þetta til álitsauka fyrir hæstv. utanríkisráðherra? Er þetta til framdráttar málinu? Eða eru þau svo viss um að enginn lesi neitt og enginn spyrji neins og enginn hafi neina gagnrýna hugsun í þessu stuðningsmannaliði, að þetta sé allt saman í lagi og þá sé hægt að fara svona fram, að í raun og veru sé enginn fyrirvari, innleiðingin verði fullkomin og algjör og við sitjum uppi með þetta?