149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir andsvarið frá hv. þm. Birgi Þórarinssyni. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé einmitt kjarni málsins, að með þeirri nálgun sem nú er lagt upp með verði settur virkilegur þrýstingur á EES-samstarfið, þrýstingur sem er alger óþarfi að setja á það. Ég sé ekki og er alveg fyrirmunað að skilja hvers vegna stuðningsmenn innleiðingar þriðja orkupakkans, sem ég held að ég geti leyft mér að segja að séu allir stuðningsmenn EES-samningsins og vilji viðgang hans, hann verði áfram ein af meginstoðunum sem við byggjum á, gera svona lítið með þessar áhyggjur. Þær eru settar fram af mörgum einstaklingum í samfélaginu, mörgum reynsluboltum, svo ég leyfi mér að nota það hugtak, mönnum sem hafa verulega vigt í umræðunni og greiningu á málum sem þessum. Áhyggjur mjög margra eru þær að flausturslega innleiddur þriðji orkupakki eins og núna stefnir í muni setja miklu meiri þrýsting á EES-samninginn en nokkurn tíma það að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar á grundvelli 102. gr.

Til að svara spurningunni: Ég er sammála því mati að það sé óskynsamlegt að nálgast málið með þessum hætti og við ættum að hlusta á ráð reyndra manna.