149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:21]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er með fyrir framan mig þingsályktunartillöguna sjálfa. Ég veit ekki hvað þarf að fara oft í þetta mál til að mönnum verði ljóst að í þingsályktunartillögunni sjálfri er þess sérstaklega getið að það þurfi fyrirvara en þeir séu ekki fyrir hendi. Með leyfi forseta stendur í 2. tölulið í þingsályktunartillögunni:

„Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir.“

Þetta er það sem við erum að eiga við hér. Alþingi þarf að aflétta vegna þess að þetta varðar stjórnarskrána.

Svo segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest.“

Þetta er hæstv. utanríkisráðherra að reyna að fá í gegn hér.

„Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.“

Ég endurtek, áður en landsrétti er breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun, þ.e. það þarf þá að breyta stjórnarskránni til þess að þetta standist lög.

„Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins.“

Í þessu felst, herra forseti, (Forseti hringir.) viðurkenning á því að þetta varði stjórnarskrá Íslands. Getur þetta verið skýrara?