149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú ber svo vel í veiði að á bls. 3 í umsögn Eyjólfs Ármannssonar lögfræðings segir, með leyfi forseta:

„Að innleiða í landsrétt reglur sem hafa ekki gildi á Íslandi veldur lagalegri óvissu og gengur gegn hagsmunum þjóðarinnar.“

Þegar maður les þennan texta er kannski ekkert skrýtið að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki haft áhuga á því að lesa hann. Þessi ágæti maður býr í Noregi og það er ekki eins þægilegt að hnippa í hann til að láta hnika til textanum eins og áður hafði verið reynt við aðra fræðimenn. Og nú er ég ekki að vega að heiðri þeirra, ég tek það skýrt fram. En það er alveg greinilegt að þeim hefur verið gert erfitt fyrir þegar þeir voru að skila sinni greinargerð. Það blasir við.

Hann segir til viðbótar, með leyfi forseta: „Ótti við að missa yfirráð yfir náttúruauðlindum er ein ástæða þess að Ísland er ekki aðili að Evrópusambandinu.“

Síðan kemur hann að því að akkúrat þetta, að leiða í landsrétt reglur eins og hann lýsir, hangir á 21. gr. stjórnarskrárinnar sem hv. þingmaður var að vísa til rétt áðan.

Við höfum stundum orðað það þannig í þessari umræðu að það séu sífellt að berast púsl til að fylla upp í þessa mynd. Hér finnst mér vera eitt púslið í viðbót. Mér finnst það satt að segja ámælisvert — nú kann ég svo sem ekki á það hvernig var farið með þessa umsögn í utanríkismálanefnd, hvort nefndarmenn lásu hana svona bara í einrúmi eða hvort eitthvað var um hana fjallað á fundum í nefndinni — en mér finnst samt með miklum ólíkindum að utanríkisráðherra sjálfur (Forseti hringir.) skuli ekki kannast við tilvist hennar. Að mínu mati er þetta eitt það magnaðasta plagg sem ég hef lesið enn sem lýsir þessari dæmalausu þingsályktunartillögu.