149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég má til með að byrja á því að bera af mér sakir. Ég tel alls ekki að ég hafi farið út fyrir efnið í fyrra andsvari mínu heldur byggði ég það upp með því að vísa til þess að gott væri að hafa fleiri í salnum sem gætu upplýst okkur um það sem er einmitt að trufla okkur líkt og hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson gerði svo ágætlega í þessu svari. Þessi lausatök í málinu valda manni áhyggjum. Í fyrsta lagi hverfa fyrirvararnir og finnast ekki. Í öðru lagi eru óskýrar yfirlýsingar og óskýr markmið um það að ýta á undan sér stjórnarskrárlegum vanda til einhverra ára inn í framtíðina.

Ég viðurkenni það, herra forseti, ég gerist eiginlega æ áhyggjufyllri yfir þessu máli eftir því sem við ræðum það meira og fleiri upplýsingar koma í fangið á okkur. Ég verð að segja það. Mér líður verr og verr með þetta mál með hverjum deginum.

Hins vegar er það aukageta í þessu máli að öll þessi umræða sem hér hefur orðið, sem er mjög góð og nákvæm, skýrir fyrir okkur sem erum á vettvangi og jafnvel í hliðarherbergjum hvað það er sem vantar upp á það að málið sé eins og það ætti að vera búið. Það er svo langt frá því, herra forseti, að það sé núna búið eins og það ætti að vera. Þess vegna þurfum við nauðsynlega að fara miklu betur (Forseti hringir.) ofan í það og reyna að skýra það betur.