149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:09]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Já, ég held að það sé alveg klárt, og ég er sammála hv. þingmanni í því, að hér er örugglega eitthvað ósagt. Það liggur ljóst fyrir — og þá þarf ekki að fara í ræður þingmanna og túlka einhver orð þar — af gögnum málsins, af þingsályktunartillögunni sjálfri og þeim gögnum og fylgiskjölum sem hæstv. utanríkismálanefnd hefur látið fylgja og lagt til grundvallar fyrir okkur þingmenn til að taka ákvörðunina, að ef við ætlum að standa við okkar drengskaparheit og fylgja stjórnarskrá Íslands, er það ómögulegt, hvað sem okkur þykir um Evrópusambandið eða alþjóðlegt samstarf eða hvað svo sem það má vera, fyrir okkur að samþykkja þessa þingsályktunartillögu óbreytta.

Ég veit ekki hvernig ég á að koma því í orð, herra forseti, eða hvernig ég get beðið auðmjúklega um að forseti — sem er þingforseti allra þingmanna, hann er ekki rekstraraðili málsins fyrir stjórnarliða eða fyrir ríkisstjórn Íslands, hann er þingforseti þingsins — hlutist til um að málinu verði frestað og að við gefum okkur tíma til að kanna þetta rækilega og vel.

Ef einhvern tíma var þörf, herra forseti, þá er nú nauðsyn.