149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:24]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði áðan að menn í stjórnarliðinu, jafnvel þótt lögfræðingar væru, þyrftu að spila á þau spil sem þeim væru gefin. Í þessu tilviki eru spilin afleit, eintóm lágspil. Það er örðugt um vik þegar maður fær þannig hendi. Í þessu máli sést berlega — málatilbúnaðurinn er með þeim hætti að þeir hafa sýnt á spilin — að trompin eru fá. Þess vegna er svo fátt um svör. Þess vegna er málflutningurinn svona loðinn. Þess vegna er hann svona misvísandi, t.d. bara varðandi lagalega fyrirvarann. Það er vegna þess að þeir eru með lágspil á hendi, kjósa að svara ekki, fara undan í flæmingi, sleppa fullt af spurningum vegna þess að þeir hafa svona lélega hendi, þótt lögfræðingar séu.

Þess vegna er rökstuðningurinn dapur. Hann er ekki burðugri en raun ber vitni, eins og við höfum verið að reyna að tala um og benda á, með lagalega fyrirvarann. Hann er mjög veikur, herra forseti. Afar veikur.