149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, svo sannarlega og það er ekki af engu sem við höfum beðið þetta ágæta fólk um að vera hér með okkur æ ofan í æ, alla þessa viku. Það er ekki eins og þetta fólk hafi ekki haft nógan tíma til að koma og kíkja á okkur. Við erum búin að vera hér meira og minna, eins og Hagkaup 24/7. Það var nógur tími og ef menn hefðu verið uppteknir einhvern tíma dagsins eða sólarhringsins hefðu þeir getað gengið að okkur hér vísum allan tímann. Ég skil bara ekki hvað dvelur orminn langa. Ég skil bara ekki af hverju þetta ágæta fólk kemur ekki hingað. Það getur þá bara hirt okkur í ræðustól og sagt að við séum vanmetakindur og vitum ekki nokkurn skapaðan hlut um hvað við séum að gera. Það væri bara fengur að því að fá slíka ádrepu, þ.e. ef hún væri rökstudd, og takast á um hana. En ekkert slíkt gerist, ekki nokkur skapaður hlutur.

Síðan reyndi ég að eiga orðastað við hv. þingmann Vinstri grænna áðan og sá undir iljar honum þegar ég vitnaði í orð hans fyrir ári. Það voru engin leiðindi í því, ekki nokkur skapaður hlutur, það var enginn dónaskapur í því. Það var bara verið að leita skýringa á akkúrat því sem hann sagði fyrir ári. Nú er hann kominn í hring og mér fannst ekkert óeðlilegt að biðja um skýringu á því. Kannski hefur hann fattað eitthvað sem ég vissi ekki og þess vegna skipt um skoðun. Það hefði líka verið fengur að því að vita það, en menn gefa ekki kost á viðtali, það er bara svoleiðis.

Þess vegna höldum við áfram að reyna að sanka að okkur þessum upplýsingum og koma þeim á framfæri. Það er náttúrlega klárt að enn er fólk hér utan húss og innan áfjáð í að heyra hvað það er sem verið er að draga saman, hvaða upplýsingar o.s.frv. Meðan svo er höldum við áfram, að sjálfsögðu.