149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:39]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti veit ekki hvort hæstv. ráðherra verðskuldar alveg þessi ummæli en í öllu falli er ljóst að hv. þingmenn Miðflokksins meta það ekki mikils að hæstv. ráðherra kom hér og átti við þá orðastað í þrjár og hálfa klukkustund og reyndi að svara spurningum eins og beðið hafði verið um. Hv. þingmenn geta verið ósammála svörunum eins og gengur en mér finnst ástæðulaust að halda áfram að úthúða hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa komið til þingsins og orðið við óskum þingmanna um að mæta til fundar. Það segir forseti af fullri einlægni við hv. þingmenn.

Ég vil einnig upplýsa að nú styttist í að umræða um þetta mál hafi staðið í 80 klukkustundir. Þar af hafa þingmenn Miðflokksins talað í hátt í 70.

Forseti beindi tilmælum til þingmanna Miðflokksins í lok fundar í morgun en verður þess ekki var að það hafi haft mikil áhrif. Því er ekki að leyna að það væri ákaflega æskilegt ef þessari umræðu gæti farið að ljúka. Til að mynda myndi starfsfólk Alþingis þiggja það að þurfa ekki að vaka eina nóttina enn.

Forseti hefur einhvern veginn á tilfinningunni að fljótlega verði eða hafi nú þegar allt verið sagt sem segja þarf í þessu máli. Hv. þingmenn Miðflokksins kvarta yfir því að aðrir þingmenn komi ekki til umræðunnar, en nærtækast er að álykta sem svo að þeir þingmenn telji sig hafa þegar lokið því að segja það sem þeir þurfa að segja og að þeim sé ekkert að vanbúnaði að ganga til afgreiðslu málsins. Þingmenn eru sjálfráðir í þeim efnum í hve miklum mæli þeir þurfa að tjá sig og hvenær þeir telja sig ekki lengur þurfa að bæta neinu við. Þannig liggur það. Ég held því að hv. þingmenn Miðflokksins bæti sig ekkert með því að endurtaka óskir um að þingmenn sem vita vel af því að þessi umræða er í gangi komi til umræðunnar. Þeir verða ekki þvingaðir til þess.

Nú eru þrír menn á mælendaskrá sem hafa fimm mínútna ræðutíma hver sem þýðir að þessari umræðu gæti lokið á 15 mínútum ef hv. þingmenn Miðflokksins, þeir hinir sömu, bæðu ekki aftur og aftur um orðið eða væru ekki í andsvörum við sjálfa sig. En haldi það áfram heldur fundurinn áfram.