149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:37]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Þetta er mjög áhugavert efni og tengist verulega því umræðuefni sem við ræðum hér. Hugmyndin er góð og tilgangurinn er góður. Tilgangurinn er auðvitað sá að orkuframleiðendur í Evrópusambandinu leitist frekar við að framleiða og selja orku sem unnin er úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Það er augljóst vegna þess að þeir fá þá hærra verð fyrir hana, og líka vegna þess að neytandinn og viðskiptavinirnir leita eftir því að kaupa vöru sem framleidd er á þann hátt en ekki á sóðalegan hátt, ef ég má orða það þannig, herra forseti. Þannig að þetta er mjög áhugavert.

En hvert leiðir það okkur á Íslandi sem erum með hreina orku ef fyrirtækin sjá sér hag í því að selja þessar ábyrgðir til útlanda af því að eftirspurnin sé það mikil og þeir fá hátt verð fyrir hana? Íslensku fyrirtækin, sem eru kannski í samkeppni við erlenda aðila, eins og ég nefndi áðan, þurfa þá að borga þessar ábyrgðir dýrum dómum í samkeppninni því að verðið mun hækka. Ég kem inn á það í næstu ræðu minni hvað greitt er fyrir hverja megavattstund.

Hvernig kemur það við okkur hér á Íslandi? Hvað gerist þá? Erum við hugsanlega að tala um niðurgreiðslukerfi? Það er áhugavert, vegna þess að tekjurnar aukast í vinstri hendinni og við ætlum þá að greiða niður með þeirri hægri. Hvað segja samkeppnisreglur Evrópusambandsins við slíku háttalagi?

Þarna erum við komin mjög nálægt tilskipuninni um þriðja orkupakkann. Mjög nálægt. Ef við ætlum að selja raforku úr landi einhvern tímann í framtíðinni á hærra verði þá hækkar verðið hugsanlega hér innan lands. Erum við þá að tala um (Forseti hringir.) niðurgreiðslukerfi til að bæta neytendum það upp? Hvað segja (Forseti hringir.) samkeppnisreglur Evrópusambandsins þá við því?