149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:56]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Nú er Bleik brugðið. Afstaða forseta í þessu máli er áhugaverð, að honum finnist eðlilegt að halda mönnum við störf, þar sem hann hefur dagskrárvaldið, í 42 tíma samfleytt án hvíldar og telji það eðlilega ráðstöfun valds síns sitjandi sem forseti allra þingmanna. En hvað um það.

Varðandi fyrirvara og innleiðingu á orkupakka þrjú og þingsályktunartillögu þá sem er hér til umræðu hef ég í fyrri ræðum mínum gert regluverkið að umtalsefni, hvernig það virkar, samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sameiginlega ákvörðun EES-nefndarinnar, hvað í henni felst, reglugerðir sem fylgja og tilskipunina frá 2009 sem er nr. 72.

Mig langar til að vitna í ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar frá 15. maí, í síðari umræðu. Hann er einn þeirra þingmanna sem hefur lýst sjálfum sér sem efahyggjumanni en að hann hafi skrifað bréf til hæstv. ráðherra og ráðuneytisins til þess að fá útskýringar á því hvernig regluverkið virki. Í ræðunni segir hann, með leyfi forseta:

„Utanríkismálanefnd lauk umfjöllun sinni 20. september 2016 og með þeirri umfjöllun var sent álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá nóvember 2014 og atvinnuveganefndar Alþingis frá október 2014. Í áliti utanríkismálanefndar kemur fram að sú aðlögun sem samið hefur verið um byggir á tveggja stoða kerfi EES-samningsins og er sambærileg því sem samið er um vegna gerða um evrópska fjármálaeftirlitskerfið. Öll ríki EFTA innan EES tóku síðan ákvörðun í maí 2017, með stjórnskipulegum fyrirvara, um að innleiða skyldi orkutilskipun þrjú. Noregur og Liechtenstein hafa þegar aflétt fyrirvörunum.“

Hér ber að nefna að Noregur aflétti fyrirvörunum en gerði við þá, að þeir telja, átta fyrirvara. Það er nú fyrir stjórnskipunardómstóli í Noregi og niðurstöðu í því máli er að vænta 23. september nk.

Áfram segir hv. þm. Óli Björn Kárason í ræðu sinni:

„Í samskiptum við aðrar þjóðir, líkt og í samskiptum okkar á milli sem einstaklinga, skiptir svo miklu máli að við gætum samkvæmni, að við vinnum að ákveðnu verkefni þegar við tökum þátt í að móta það, sérstaklega þegar við óskum eftir því að tekið sé tillit til sérstöðu okkar, eða viðkomandi einstaklings, við setningu á einhverjum leikreglum sem menn ætla að koma sér saman um. Að það sé í allri þeirri vinnu, ekki síst heimavinnunni sjálfri, ekki gefið til kynna annað en að fullur og eindreginn vilji sé til að eiga samvinnu við mótaðilann á grunni þeirra leikreglna sem menn vinna sameiginlega að mótun á.“

Varðandi þetta langar mig að segja: Leikreglurnar eru alveg skýrar. Þær er að finna í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og eftir þeim hefur Ísland unnið fram að þessu. En hluti af leikreglunum er að leggja hinn stjórnskipulega fyrirvara fyrir Alþingi. Ef Alþingi ákveður hins vegar að hafna því að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara fer áfram samkvæmt leikreglunum sem menn hafa komið sér saman um. Það er nauðsynlegt að hafa í huga að hér virðist einhver misskilningur hafa átt sér stað hjá hv. þingmönnum. Í niðurlagi ræðu sinnar segir hv. þingmaður:

„Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að það er óumdeilt að Íslendingar og íslensk stjórnvöld, Alþingi, hafa fullan og óskoraðan rétt til að hafna því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara gagnvart innleiðingu þriðja orkupakkans sem og öðrum tilskipunum sem sameiginlega EES-nefndin, þar sem við eigum sæti, hefur samþykkt að innleiða eftir umfjöllun þjóðþinga, a.m.k. Alþingis; nefnda Alþingis og hér í þingsal, sem eftir þá umfjöllun hafa gefið grænt ljós á að innleiða viðkomandi tilskipun.“

Það er ekki nefnda Alþingis að gefa grænt ljós á að innleiða viðkomandi tilskipun. Það er þingsins. Varðandi Noreg er aflétting stjórnskipulegra fyrirvara í Noregi öðrum skilyrðum háð en hér á Íslandi þar sem stjórnarskrá þeirra gerir ráð fyrir auknum meiri hluta við afléttingu stjórnskipunarfyrirvara.