149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:51]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það sem vakti mesta undrun af öllu var alvöruleysið og mér liggur við að segja kæruleysið sem virtist einkenna málflutning hæstv. ráðherra í gær. Ég var mjög undrandi þegar hæstv. ráðherra kom hingað og talaði eins og hann gerði eftir að hér hafa lengi staðið umræður um þýðingarmikil mál, þar sem undir er árekstur við stjórnarskrá og valdframsal sem tengist auðlindum þjóðarinnar. Það er meira að segja þannig að í þeirri álitsgerð sem oftast er vitnað til er því með nokkurri einföldun, eins og sagt er, jafnað við það að erlendum aðilum væri fengið ákvörðunarvald um fiskafla í sjávarútvegi. Það verður að segjast eins og er að það er undarlegt að ráðherra telji það brýnast í málflutningi sínum að reifa einhverjar hugmyndir, að ekki sé notað orðið dylgjur, um einhver norsk ítök hér.

Hann var þráfaldlega spurður að því við hvað hann ætti. Er hæstv. ráðherra að vísa til þeirra þingmanna sem hvað mest hafa fjallað um þetta mál hér? Er hann að vísa til einhverra aðila úti í samfélaginu? Er hann að vísa til grasrótarsamtaka sem sprottið hafa upp og kalla sig Orkuna okkar? Ráðherrann vék sér undan því að svara þessum spurningum En eftir stendur þessi sérkennilega framganga sem olli miklum vonbrigðum. Auðvitað bera menn góðan hug til hæstv. ráðherra og fögnuðu komu hans hingað. Við hlökkuðum til að heyra mál hans og skýringar á þeim fjölmörgu atriðum sem hér hafa verið tekin upp.