149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:17]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir ferskur og nýstárlegur blær á þessari umfjöllun hv. þingmanns um kolefnisfótspor mismunandi framleiðsluaðferða. Þetta er svo athyglisvert og ég vona að hann muni fjalla um þetta á þeim tíma, ef færi gefst, þegar vænta má að fleiri séu að fylgjast með umræðunni en núna, upp úr klukkan sex að morgni laugardags. Þetta er mjög þarft og brýnt mál.

Þegar hv. þingmaður fer að tala hér um raforkuframleiðslu fyrir atbeina vindmylla leiðir það hugann að því hvernig sá kostur hefur sprottið upp hér á landi, skyndilega og jafnvel svolítið óvænt. Það hefur kannski ekki verið á allra vitorði nákvæmlega hver arðsemin væri af raforkuframleiðslu með þessum hætti í samanburði við raforkuframleiðslu með vatnsafli. En ég ætla rétt að leyfa mér að vona að menn láti ekki grípa sig í bólinu varðandi eðlilegar kröfur sem gera verður hér til umhverfisverndar. Það þarf að fara yfir það nákvæmlega hvaða kröfur rétt er að gera í því efni. Ég vil nota þetta tækifæri og minna á fyrirspurn mína til hæstv. iðnaðarráðherra, sem ég vona að svar fáist við sem allra fyrst, um fjölda rannsóknarleyfa sem gefin hafa verið út af hálfu Orkustofnunar í vatnsorku og vindorku og fjölda framkvæmdaleyfa. Ég tel að það muni ef til vill varpa nýju ljósi á málið í heild sinni.