149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi Hitaveitu Suðurnesja er ekki einungis að það fyrirtæki hafi verið burðarás á Suðurnesjum, eins og við þekkjum báðir, ég og hv. þingmaður, heldur var þetta fyrirtæki, og er enn, líklega tæknivæddasta orkufyrirtæki sem við Íslendingar eigum til.

Það vill þannig til að helmingur eignarhluta þessa fyrirtækis hefur nú ratað aftur í íslenska eigu. Fyrirtæki í eigu 14 lífeyrissjóða á nú sléttan helming í þessu fyrirtæki og helmingur er í eigu erlendra aðila. Í öllum þeim viðskiptum sem þarna áttu sér stað fylgdi þriðjungshlutur í Bláa lóninu, sem var nú um daginn tekinn út fyrir sviga þegar eignaskiptin áttu sér stað. Óhemjuverðmætur hlutur og ég hygg, herra forseti, að ég verði í næstu ræðu eða ræðum að fara aðeins dýpra ofan í þetta mál og fleiri sem eru lík því, einmitt til þess að draga fram, eins og hv. þingmaður gerði svo býsna vel í ræðu sinni áðan, hvaða áhætta er í því fólgin fyrir okkur að taka minnstu áhættu á því að við séum að missa tökin á okkar orkubúskap.

Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki einboðið að við þurfum nú að vera á verði sem aldrei fyrr til að koma í veg fyrir að atburðir eins og þessi endurtaki sig.