149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni. Það væri áhugavert að vita hversu lengi þingfundur á að standa. Ég er svo sem nýmættur hingað, en hafði afboðað mig í afmæli Sjálfstæðisflokksins sem mér var boðið í hér í Reykjavík í dag. Ég ætlaði að eyða þessum degi fyrir norðan með börnunum mínum, líkt og ég hygg að margir starfsmenn Alþingis hafi ætlað sér að gera. En þökk sé forseta Alþingis, sem ákvað að hafa vinnudag í dag, mætum við að sjálfsögðu til þess að vinna. Í það minnsta sumir.

Forseti ákveður fundartíma á Alþingi. Hann ákveður hvenær fundur byrjar og hvenær hann endar. Það er þannig eðlilegt að spyrja hæstv. forseta hvort hann hyggist láta fund standa í dag og kvöld og fram á sunnudag, bara svo menn, sem höfðu kannski hugsað sér að keyra aftur heim og hitta fjölskyldur sínar, geti gert ráðstafanir og velt því fyrir sér.