149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er kannski vel við hæfi að við þingmenn Miðflokksins verðum hér og ræðum um fullveldi Íslands meðan Sjálfstæðismenn skála í kampavíni úti í bæ yfir því að stuðla að því að skerða fullveldið, afsala völdum til Evrópusambandsins. Það er kannski eitthvað sem þeir kjósa frekar að gerist í dag á 90 ára afmælinu en að standa hér og verja það.

Mig langar líka, herra forseti, að óska eftir því, ef mögulegt, er að hinir frábæru starfsmenn Alþingis verði beðnir um að hraða því að prenta upp ræðu utanríkisráðherra, andsvör og allar ræður sem ráðherrann flutti. Ég varpaði í síðustu ræðum mínum fram mörgum spurningum sem ég vonaðist til að fá svör við og þess vegna væri mjög mikilvægt fyrir framhald umræðunnar, fyrir mig í það minnsta, virðulegur forseti, að fá að sjá hvort ráðherra hafi einhverju svarað. Ég á svo sem ekkert endilega von á því (Forseti hringir.) en það væri forvitnilegt.