149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:31]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það er mörgum spurningum ósvarað í þessu máli enn þá og breytir ekki því þó að hæstv. utanríkisráðherra hafi heiðrað samkomuna, ef ég má orða það svo, með viðveru sinni í gær. Það vakti undrun mína, verð ég að leyfa mér að segja, herra forseti, hversu illa undirbúinn mér virtist hæstv. utanríkisráðherra í raun og sanni vera. Hér hafa staðið yfir umræður um nokkurt skeið og mjög áleitnar spurningar komið fram hjá þeim sem fylgst hafa með, og ég geri ráð fyrir að á snærum hæstv. ráðherra sé starfandi fólk sem fylgist með þessum umræðum og hafi getað upplýst ráðherrann, þótt hann hafi verið staddur erlendis í opinberum erindagjörðum. En ráðherra svaraði í raun fæstu af því sem hann var inntur eftir hér.

Meðal þeirra grundvallarspurninga sem standa út af er eftirfarandi: Vegna þess sem fram kemur í áliti lögfræðilegra ráðunauta utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar, að hætta sé á því að innleiðing þessa orkupakka rekist á við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands — og því er lýst með orðunum „verulegur vafi“ á að þetta standist stjórnarskrá — hefur því verið tjaldað til að innleiðingin eigi að gerast í krafti þess sem kallað hefur verið lagalegur fyrirvari.

Það hefur svo mörgu verið haldið fram um hvar lagalega fyrirvarans sé að leita að það er kannski ekki lengur hægt að hafa tölu á þeim atriðum sem hafa verið nefnd í því sambandi. Hæstv. ráðherra nefndi alveg nýtt atriði í gær og virtist mega skilja ráðherrann á þann veg að lagalega fyrirvarans væri að leita í nefndaráliti, líklegast atvinnuveganefndar. Þó gæti það verið utanríkismálanefndar. Ég er ekki alveg tilbúinn að fullyrða neitt um það og best að hafa allan vara á sér í því sambandi.

En þá vakna auðvitað mjög áleitnar spurningar, jafnvel fyrir leikmenn í lögvísindum, um hvernig nefndarálit á Alþingi geti falið í sér lagalegan fyrirvara og hvað þá að slíkur fyrirvari geti haft gildi í skilningi þjóðaréttar. Sú spurning er mjög áleitin. Hvar er lögfræðileg álitsgerð um þetta atriði?

Annað atriði stendur í raun og sanni út af og engin svör fengust um frá hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar hann að bregðast við þeirri niðurstöðu í hinni lögfræðilegu álitsgerð ráðunauta ríkisstjórnarinnar að erlendar stofnanir fái hér ákveðin ítök í orkuauðlindum þjóðarinnar? Þeim ítökum er lýst þannig að mér hefur sýnst best að draga það saman með þremur orðum sem koma fyrir í umræddri lögfræðilegri álitsgerð. Það er að erlendar stofnanir hafi a.m.k. óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar. Hér er svo stórt mál á ferð að það getur ekki verið að menn geti afgreitt þetta öðruvísi en að fyrir liggi meiri og betri skýringar en fram hafa komið um það hvernig menn ætli að bregðast við þessu lögfræðilega áliti.

Ég tek fram í þessu sambandi að ég tel að þessum lagalega fyrirvara sé fyrst og fremst ætlað að bregðast við stjórnskipunarvandanum þannig að ég kalla enn og aftur eftir því að upplýst verði um það hver viðbrögðin við þessu áliti varðandi ítök í orkuauðlindinni séu.

Ég get ekki lokið þessari ræðu öðruvísi en að segja að mér fannst að ráðherra hefði gjarnan mátt (Forseti hringir.) nálgast þetta mál og þessa umræðu af eilítið meiri alvöru og ábyrgð en mér sýndist mega ráða af máli hans.