149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:39]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tel að seinni spurningunni sé fljótsvarað. Það getur ekki komið til nokkurra minnstu álita að texti í nefndaráliti geti haft neina þýðingu í þjóðréttarlegu samhengi. Ég lýsi bara eftir þeim lagamönnum sem myndu lýsa öndverðri skoðun.

En varðandi hina spurninguna hafi hv. þingmaður með því að nefna fjórða orkupakkann, vetrarpakkann sem menn eru farnir að kalla svo, og sem samkvæmt blaðafregnum í vikunni er nú frágenginn af hálfu Evrópusambandsins — ég tel að þegar fyrir liggur að það séu alvarleg lögfræðileg álitaefni sem varða stjórnarskrána, eins og rakið er í lögfræðiáliti Friðriks Árna og Stefáns Más, ráðunauta ríkisstjórnarinnar, leiði það af sjálfu sér, herra forseti, að það hljóti að verða að skoða mögulegan árekstur í samhengi við efni fjórða orkupakkans.

Þetta er ein af þeim stóru spurningum sem við stöndum frammi fyrir. Þær eru í raun og sanni fjölmargar. Þetta mál sýnist vera lögfræðilegur óskapnaður eins og það stendur. Það er nánast skoplegt með alla þá tilburði að tefla fram einhverju sem gæti kallast vera lagalegur fyrirvari. En um eitt virðast menn alveg sammála, fylgismenn málsins, að það megi alls ekki fá lögfræðilegt álit á því hvert væri gildi þess fyrirvara sem ætlað er að bjarga þessu máli, undir (Forseti hringir.) þeim formerkjum að hér sé um að ræða belti og axlabönd.